Í dag verða Menningarverðlaun DV fyrir árið 2012 afhent í Iðnó kl. 17:00. Veitt eru verðlaun í níu flokkum og eru tilnefningar 43 talsins. Þar að auki eru veitt verðlaunin Val lesenda sem byggist á kosningu á vef DV sem lauk í gær.

Flokkarnir níu eru; kvikmyndir, hönnun, tónlist, bókmenntir, danslist, leiklist, fræði, arkitektúr og myndlist.

Ásgeir Trausti er tilnefndur í flokki tónlistar og segir í tilnefningunni:

Ásgeir Trausti er ungur tónlistarmaður sem kom fyrst fram á sjónarsviðið í sjónvarpsþættinum Hljómskálanum vorið 2012. Þar söng hann lagið Sumargestur sem fangaði vorstemninguna og um leið huga þjóðarinnar. Ásgeir Trausti fylgdi vinsældum þess lags eftir með smáskífunni Leyndarmál sem náði gífurlegri hylli og kom honum endanlega á kortið sem einum efnilegasta tónlistarmanni landsins.

Ásgeir Trausti lærði klassískan gítarleik og tónlistin hefur lengi leikið stórt hlutverk í hans lífi. En það var ekki fyrr en hann bankaði upp á hjá Guðmundi Kristni Jónssyni (Kidda Hjálmi), upptökustjóra í Hljóðrita, að hjólin fóru virkilega að snúast. Hljóðprufur sem hann hafði í sínum fórum lofuðu svo góðu að ráðist var í upptökur undir eins. Sú vinna hefur nú skilað sér í fyrstu breiðskífu Ásgeirs Trausta, Dýrð í dauðaþögn. Tónlistinni má lýsa sem töfrandi blöndu af þjóðlagapoppi og raftónlist þar sem fallegar laglínur, gítarplokk og há og falleg rödd Ásgeirs gegna lykilhlutverki.“

Tilnefningarnar í heild sinni, skipan dómnefnda og rökstuðning þeirra má sjá á vef DV, eða með því að smella hér.