Þór Breiðfjörð hefur nú lifað og starfað sem leikari og söngvari í Bretlandi í rúm 10 ár. Hann hefur mörg af stærstu hlutverkum söngleikjasögunnar undir beltinu ásamt því að hafa gælt við kvikmyndir og sjónvarp.

 Fram til þessa hefur Þór ekki verið ötull við að auglýsa árangur sinn á Íslandi og vegna anna hefur honum ekki gefist tími til mikils tónleikalands hér á landi. Einu tónleikarnir á Íslandi voru ætlaðir fjölskyldu hans og ættmennum í Stykkishólmskirkju árið 2001. Þar dreif þó að múg og margmenni og gagnrýnandi Morgunblaðsins, sem kom þar af tilviljun, hafði mörg og fögur orð um frammistöðu Þórs og vald hans á söngleikjaforminu.

En nú hyggst Þór bæta úr þessu og heldur alls fjóra söngleikjatónleika í sumar. Einnig er hann nú að ljúka upptökum á sinni fyrstu einmenningsplötu með eigin lögum á þessu ári. Þar sýnir hann að hann hefur engu gleymt sem rokksöngvari. Platan er unnin í Kanada, Bretlandi og á Íslandi en Þór dvelur um þessar mundir á öðru heimili sínu í Nova Scotia við skriftir.

Þór hóf feril sinn sem rokksöngvari og lagahöfundur á Íslandi, samdi meðal annars einkennislag á Súðavíkurtónleikum í Háskólabíói þegar snjóflóðið alræmda féll.

Hugur Þórs færðist fljótlega inn á svið leiklistarinnar og fékk hann hlutverk í hinni geysivinsælu uppfærslu Flugfélagsins Lofts á söngleiknum Hárinu. Ásamt leik sínum í stykkinu söng Þór lagið „Kviðristur“, bæði í sýningunni og á plötunni.

Strax á eftir bauðst Þór að syngja hlutverk Júdasar í uppsetningu Borgarleikhússins á Súperstar, en þar söng hann helming sýninga á móti Stefáni Hilmarssyni. Eftir að hafa hafnað tilboði frá virtasta söngleikjaskóla Vínarborgar sökum anna við Súperstar, ákvað Þór þó að stefna í leiklistarnám.

Hann starfaði fyrst í ár með hljómsveitinni Zölku en þá bauðst honum framhaldsnám í einum af stærstu söngleikja- og leiklistarskólum Bretlands, The Arts Educational London Schools, en einn af aðalverndurum skólans er sjálfur Sir Andrew Lloyd Webber.

Eftir útskrift þaðan komst Þór í gegnum opin inntökupróf (yfir 400 manns) og landaði hlutverki í Súperstar á West End. Eftir það hefur hann leikið margvísleg hlutverk, bæði á West End og í Evrópu. Þar má telja hlutverk eins og Guð almáttugan í Roll Over Jehovah, Jean Valjean og Javert í Les Miserables og titilhlutverkið í Óperudraug Ken Hill.

Þór hefur nú tekið sér tíma í að undirbúa plötuna en kemur fram á tónleikum þess á milli.