Kröftugur endir hjá Norðanátt í Víking til Noregs

Norðanátt var á ferð og flugi um Norður-Noreg í janúar sem leið. Undirbúningur að ferðinni hófst snemma síðastliðið haust en ferðin var skipulögð í samvinnu með Innovasjon Norge.

Tilgangur ferðarinnar var að miða að auknu samstarfi og samvinnu milli Íslands og Norður-Noregs í málefnum nýsköpunar, uppbyggingar atvinnulífs í dreifðum byggðum og áherslu á græna atvinnustarfsemi og fjárfestingar en Norðanátt hlaut styrk fyrir verkefninu úr nýsköpunarsjóð Lóu frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.  
Í síðustu færslum sögðum við frá ferðum hópsins til Bodö, Mo i Rana og Mosjoen og höldum við ferðasögu hópsins hér áfram þar sem dagskráin var þétt og mikið af lærdóm til að taka heim.


Tromsø er stærsta sveitarfélag Norður Noregs þar sem íbúar eru um 78 þúsund talsins. Þangað hélt hópurinn til að fræðast betur um hvernig norska ríkið og sveitarfélög styðja við nýsköpun í gegnum Innovation Norge og var ferðin nýtt til fulls með heimsóknum til ýmissa fyrirtækja og stofnana á Tromsø svæðinu. Það sem einkennir þeirra nálgun er stuðningur, allt frá hugmynd þar til varan er klár í framleiðslu. Það tryggir að þeir fjármunir sem settir eru í stuðning við nýsköpun skilar sér í aukinni verðmætasköpun fyrir þjóðina í heild. 

Í Tromsø hittum við starfsmenn Kupa og Norinnova sem eru iðnaðarmiðuð nýsköpunar- og ráðgjafafyrirtæki sem eru með skrifstofur vítt og breitt um Noreg. Meginmarkmið þeirra er að aðstoða við að búa til fyrirtæki með vaxtarmöguleika. Ráðgjafateymið aðstoðar frumkvöðla ásamt rótgrónum fyrirtækjum við alla þætti sem snúa að rekstri. Þau búa yfir öflugu tengslaneti sem er lykilþáttur í þeirra þjónustu og styður við vöxt fyrirtækja. Sá hluti af þeirra starfsemi sem snýr að frumkvöðlum er að hluta fjármagnaður í gegnum ríkisfjármagn í gegnum stofnunina Siva. Siva er ríkisstofnun sem er að mestu fjármögnuð frá Iðnaðar og -sjávarútvegsráðuneytinu. Siva hefur það að markmiði að stuðla að sjálfbærum vexti í atvinnulífinu í Noregi og stuðlar að fjölgun starfa og verðmætasköpun og lifandi samfélögum um allt land. Siva fjármagnar inkubatora sem við höfum fjallað um, um allt land en þar er gerður tíu ára samningur við fyrirtæki eins og Kupa og Norinnova þar sem þeir taka að sér að aðstoða frumkvöðla á fyrstu stigum. 

Hjá Biotech North (á myndum hér fyrir ofan) er unnið að ýmsum rannsóknarstörfum úr auðlindum hafsins og er meðal annars markmið þeirra að þróa lyf og auka verðmætasköpun úr hafi með tengingar inn í atvinnulífið og helstu sérfræðinga heims. 

Heimsklassa aðstaða til matvælavinnslu úr afurðum hafsins

Þá heimsóttum við Biotep í Tromsø , sem er heimsklassa aðstaða til matvælavinnslu þar sem framleiðendur á afurðum úr sjávarfangi geta leigt framleiðslulínu í heilu í lagi ásamt starfsmönnum.

Framleiðslulínan inniheldur öll helstu tæki sem þarf til fullvinnslu á matvælum en skilyrði er að þau komi úr sjó. Þessi aðstaða gerir framleiðendum gerir framleiðendum kleift að gera tilraunir og framleiða fullbúnar vörur, allt á einum stað. Aðstaðan gerir fyrirtækjum kleift að skala sig upp á hagkvæman hátt með því að byggja framleiðslu sína upp með því að leigja aðstöðuna, þar til fyrirtækið er orðið það sterkt að það getur byggt upp sína eigin aðstöðu.  Þetta er aðstaða í eigu Nofima sem má segja að sé systurstofnun Matís á Íslandi. 

Mynd: Frá heimsókn hópsins til Arctic Frontiers 

Síðasta stopp íslensku sendinefndarinnar í Tromsø var til aðstandenda Arctic Frontiers, sem er árviss ráðstefna um málefni Norðurslóða. Anu Fredrikson ræddi við okkur um sameiginlega áskoranir Norðurslóða, og framtíð þess samstarfs sem er viðkvæm þessi misserin vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. Það var afar fróðlegt að um þessi málefni, enda gætu þau haft mikil áhrif á Ísland í framtíðinni.

Heimsókn í sendiráð Íslands í Osló

Áður en hópurinn hélt heim á leið tók Högni Kristjánsson, sendiherra vel á móti gestum í sendiráði Íslands í Osló. Eva Mjöll Júlíusdóttir, viðskiptafulltrúi kynnti fjölbreytta starfsemi sendiráðsins, Þórður Reynisson kynnti starfsemi og verkefni Nordic innovation og Steinunn Þórðardóttir formaður norsk-íslenska viðskiptaráðsins sagði okkur frá starfsemi þess.  Norðanáttarteymið kynnti örstutt starfsemi SSNE, EIMS og Hraðsins Húsavík og var Hringrás Norðanáttar einnig kynnt. Kolbeinn frá Grænafli og Júlía frá Mýsköpun sögðu einnig frá verkefnunum sínum.

Mynd: Fulltrúar Norðanáttar í sendiráði Íslands í Osló. Á mynd með teyminu er Högni Kristjánsson, sendiherra og Eva Mjöll Júlíusdóttir, viðskiptafulltrúi

Eftir formlega dagskrá var boðið uppá opið spjall og tengslamyndun og var þetta frábær endir á ferð sem Norðanátt og frumkvöðlateymin áttu þessa viku.

Við þökkum fyrir hlýjar og góðar mótttökur hvert sem við fórum! Við heimsóttum fjóra þekkingargarða, sóttum klasaráðstefnu, hittum 20 frumkvöðlaverkefni, 15 klasaverkefni, heimsóttum vísindasetur og svo margt fleira!

Previous
Previous

Fjórtán verkefni valin á Fjárfestahátíð Norðanáttar

Next
Next

PellisCol í topp 10 í lokakeppni Gulleggsins