Þriðji og síðasti mentorafundur Vaxtarrýmis

Þriðji mentorafundur viðskiptahraðalsins Vaxtarrýmis fór fram síðastliðinn mánudag. Á fundinum hittu teymin sjö reynslumikla aðila víða úr atvinnulífinu með mismunandi bakgrunn og þekkingu. Þetta var jafnframt síðasti mentorafundurinn á dagskrá í ár og er lokasprettur hraðalsins hafinn. Við þökkum þessum mentorum kærlega fyrir þennan ómetanlegan stuðning til frumkvöðlanna okkar.

Garðar Stefánsson er forstjóri og meðstofnandi GOOD GOOD. Garðar er matvælafrumkvöðull sem hefur sett á fót þrjú fyrirtæki á Íslandi - Saltverk, Norður Salt og GOOD GOOD. Garðar hefur byggt GOOD GOOD frá grunni ásamt meðstofnendum sem nú í dag er með 15 vinsælasta sultumerkið í USA og selt í um 10.000 verslunum þ.m.t Walmart, Publix, HEB og Meijer.

Oddný Anna Björnsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt og vinnur að fjölbreyttum verkefnum í gegnum nýsköpunarfyrirtæki þeirra hjóna, Geislar Gautavík ehf. Hún er sjálfstæður ráðgjafi, framkvæmdastjóri Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli, kjörinn fulltrúi í Múlaþingi, stundar fjölbreyttan smábúskap í Gautvík og sér um sölu- og markaðsmál eigin framleiðsluvara sem eru seldar beint frá býli og í verslunum um land allt. Hún hefur starfað í matvælageiranum í rúman áratug, m.a. sem framkvæmdastjóri heildsölunnar Yggdrasill og ráðgjafi/verkefnastjóri hjá Krónunni í umhverfis-, samfélags- og lýðheilsumálum. Áratuginn þar á undan starfaði hún sem framkvæmda- og deildarstjóri hjá Össuri hf. og Ossur Americas, m.a. á sviði vörustjórnunar, markaðs- og almannatengsla og viðskiptaþróunar.

Daði Guðjónsson er forstöðumaður markaðs- og umhverfismála hjá Krónunni. Daði stýrir markaðs- og umhverfismálum hjá Krónunni sem er verðmætt vörumerki og hefur verið í fararbroddi í smásölu þegar kemur að nútímalegriþjónustu, samfélagslegri ábyrgð og umhverfisábyrgum starfsháttum. Hann býr að viðamikilli reynslu og þekkingu á markaðsmálum og stefnumótun verkefna og hefur síðastliðin átta ár starfað sem fagstjóri neytendamarkaðssetningar hjá Íslandsstofu og stýrt þar erlendum markaðsverkefnum fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Dæmi um markaðsherferðir sem Daði hefur stýrt hjá Íslandsstofu er Íslandsveruleikinn Icelandverse og hátalaraherferðin Let it Out. Auk þess stýrði Daði nýjasta útspilinu OutHorse þar sem ferðalöngum gefst kostur á að „úthesta“ vinnupósti sínum meðan á fríinu stendur. Markaðsverkefnin hafa hlotið alþjóðleg verðlaun og viðurkenningar og náð til milljóna manna um allan heim.


Arna Björg Bjarnadóttir, Verkefnisstjóri kirkjubyggingar í Grímsey og byggðaþróunarverkefnisins Glæðum Grímsey. Arna Björg er sagnfræðingur (BA) og menningarmiðlari (MA) frá HÍ. Hún hefur unnið í frumkvöðla- og styrkjaumhverfinu í rúm 20 ár, sem alþjóðafulltrúi hjá Rannís og setið í stjórnun ýmissa sjóða. Hún byggði upp og var framkvæmdastjóri um árabil bæði á Sögusetri íslenska hestsins og við Óbyggðasetur Íslands. Þá hefur hún átt frumkvæði að og stýrt fjölmörgum öðrum nýsköpunarverkefnum.

Pétur Arason er sveitastjóri í Húnabyggð og eigandi Manino (“Chief Challenger of status quo”). Pétur hefur unnið mikið með stjórnun og nýsköpun í stjórnun og hvernig ná má samkeppnisforskoti. Pétur kennir nýsköpun í stjórnun í Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur þar sem verið er að ræða hvernig hægt er að koma nýskapandi hugsun betur fyrir í fyrirtækjum og stofnunum, en sjálfur hefur hann unnið mikið með nýskapandi fyrirtækjum og var stjórnandi í Marel í 10 ár.

Margrét Ormslev er yfirmaður rekstrar Transition Labs. Margrét hefur yfir 10 ára reynslu í nýsköpun, bæði sem stjórnandi við uppbyggingu umhverfistæknifyrirtækis og sem fjárfestir. Þar áður í fjármálum (Landsbankinn) og á verkfræðistofu (innkaupa og gæðamál.) Margrét er með meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands, meistaragráðu í orkukerfum og orkustjórnun frá The School of Renewable Energy Science auk B.S. gráðu í iðnaðarverkfræði.

Björn Steinar Jónsson er Saltari, stofnandi og Framkvæmdastjóri Saltverks. Björn Steinar hefur viðamikla reynslu af stofnun og uppbyggingu fyrirtækja, sölu og útflutningi, uppbyggingu vörumerkja og dreifileiða.

Previous
Previous

Á þitt fyrirtæki heima á fjárfestahátíð Norðanáttar?

Next
Next

Annar mentorafundur Vaxtarrýmis